Fram kemur í tilkynningu frá Isavia að stór flugslysaæfing sé haldin á þriggja til fjögurra ára fresti á hverjum flugvelli á Íslandi þar sem boðið er upp á áætlunarflug. Tvær til fjórar æfingar séu haldnar á ári hverju og allt í allt hafa Isavia og samstarfsaðilar þess haldið ríflega sjötíu flugslysaæfingar frá árinu 1996.

Á æfingunni var sett á svið flugslys þar sem flugvél með eld í hreyfli hlekkist á við lendingu og brotlenti með þeim afleiðingum að eldur braust út í vélinni. Kveikt var í bílflökum og þeim stillt upp til að líkja eftir flugvélarbúk.
Þá voru eldfuglar á æfingasvæði slökkviliðs notaðir. Um 100 manns léku slasaða og voru þeir farðaðir eins og þeir væru með áverka til að líkja sem mest eftir raunverulegu slysi.

„Æfingin gekk mjög vel og nú hefst vinna við að rýna viðbrögðin,“ er haft eftir Elvu Tryggvadóttur, verkefnastjóra neyðarviðbúnaðar hjá Isavia og æfingastjóra.
Fram kemur í tilkynningunni að farið verði ítarlega yfir þau atriði sem gengu vel á þessari æfingu, en einnig þau sem betur mættu fara.

„Við viljum þakka öllum þeim fjölmörgu aðilum sem komu að æfingunni fyrir afskaplega gott samstarf,“ segir Elva.
„Þessi samvinna er svo mikilvæg fyrir viðbúnað við hvers konar hópslysum sem kunna að verða. Þessar æfingar sýna okkur svart á hvítu hvað við erum að gera vel og hvað við getum bætt okkur í.“