Scholz og Pútín höfðu ekki ræðst við í að verða tvö ár þegar þeir töluðu loks saman í síma í um klukkustund á föstudag. Símtalið fór ekki vel í úkraínska ráðamenn, þar á meðal Volodýmýr Selenskíj forseta, sem sögðu það rjúfa samstöðu vestrænna ríkja í þágu pólitískra hagsmuna Scholz.
Þýski kanslarinn býr sig nú undir að takast á við flokka af bæði hægri og vinstri vængnum sem eru mótfallnir því að Þýskaland styðji Úkraínu í vörn landsins gegn innrás Rússa í kosningum sem eiga að fara fram í febrúar.
Scholz reyndi að verja símtalið við Pútín í gær, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
„Það var mikilvægt að segja honum að hann gæti ekki treyst á að stuðningur Þýskalands, Evrópu og margra annarra í heiminum færi þverrandi,“ sagði Scholz við fréttamenn.
Samtalið hefði verið ítarlegt en það hefði ekki bent til þess að nokkur breyting hefði orðið á afstöðu Pútín til stríðsins. „Og það eru ekki góðar fréttir,“ sagði fráfarandi kanslarinn.
Hvað sem orðum Scholz líður má fastlega reikna með því að stuðningur vestrænna ríkja við Úkraínu minnki þegar Donald Trump tekur aftur við sem forseti Bandaríkjanna í janúar. Scholz sagði að það hefði afleiðingar fyrir Evrópu.
„Að mínu mati væri það ekki góð hugmynd ef það færu fram viðræður á milli bandaríska og rússneska forsetans og leiðtogi mikilvægs evrópsks lands gerði það ekki líka,“ sagði Scholz.