Norðmenn virðast hafa áhuga á að fylgjast með gangi máli á Íslandi. Þegar þetta er skrifað er efsta frétt um eldgosið bæði á vef Verdens gang og hjá Norska ríkisútvarpinu. Þess má þó geta að þó fréttirnar frá Íslandi séu efstar fá fréttir af Marius Borg Høiby, stjúpsyni Hákonar krónprins, stærra pláss, en hann er í gæsluvarðhaldi grunaður um að brjóta gegn konum.
Í Svíþjóð, miðað við Aftonbladet, Expressen og Dagens Nyheter, er fjallað um gosið, en sú umfjöllun fær talsvert minna pláss en hjá nágrönnunum í Noregi.
Áhugi Dana virðist minni. Hvergi er minnst á eldgosið á forsíðu Denmarks Radio, né hjá Berlingske eða Ekstrabladet.
Þegar litið er út fyrir Norðurlöndin má sjá að Reuters, Bloomberg, Times of India, og Fox Weather hafa fjallað um eldgosið.
„Augnablikið þega íslenskt eldfjall gýs á ný og sendir út hrauntungur og reykjarmökk: Rýmingar framundan,“ segir síðan í fyrirsögn Daily Mail.
Fyrir um ári síðan, þegar það gaus rétt fyrir jól, fjölluðu fleiri erlendir miðlar um gosið, líkt og BBC, CNN, New York Times, The Guardian, Washington Post. Þar að auki var umfjöllunin Meira áberandi á vefsvæðum miðlanna.