Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA sagði frá því á Vísi í gær að frambjóðendur efstu þriggja sæta Miðflokksins í Norðausturkjördæmi hafi komið óboðnir í húsakynni skólans, Sigmundur Davíð hafi krotað á varning flokkanna og í kjölfarið hafi þremenningunum verið vísað út af aðstoðarskólameistara. Móðir pilts í skólanum segir Sigmund hafa uppnefnt son sinn meðan á heimsókninni stóð.
Sigríður ítrekaði frásögn sína af heimsókninni í Kvöldfréttum Stöðvar 2, eftir að Sigmundur hafði í dag vísað sögum um að honum hafi verið vísað út úr skólanum á bug. Fréttina má sjá hér að neðan.
Þá segir Sigríður að nemendur hafi fengið undarlegar fyrirspurnir frá formanninum þegar aðstoðarskólameistarinn hafði beðið frambjóðendurna um að yfirgefa svæðið.
„Þau sögðust vera að fara. Hann vildi vera með þeim. Þau sögðust vera að fara í tíma og hann spurði, má ég ekki bara koma með ykkur í tíma?“ segir Sigríður Huld.
„Þetta er svo gjörsamlega út fyrir það sem við viljum, að það sé vinnufriður í skólastofunni gagnvart nemendum,“ bætir hún við.
Sigríður Huld bendir að auki færslu sem Sigmundur birti á Facebook í gærkvöldi ásamt mynd af sér og ólögráða nemendum. Hún segir að myndbirtingin hafi komið flatt upp á piltana á myndinni.
„Þegar maður heyrir að það er verið að birta myndir af ólögráða nemendum á pólitíska síðu stjórnmálamanns, það er heldur ekki í lagi, alveg sama hver á í hlut.“
Hefði brugðist eins við sama hver ætti í hlut
Sigmundur hefur sakað Sigríði um að ganga erinda Samfylkingarinnar í málinu en hún var í 22. sæti flokksins á Akureyri í sveitarstjórnarkosningunum 2022. „Er það ekki bara af því að skólastjórinn er virk í Samfylkingunni og sá þarna tækifæri til að búa til einhverja sögu? Ég tek ekki á neinn hátt undir þá sögu,“ sagði hann í dag aðspurður hvernig stæði á að mikið bæri á milli frásagna þeirra af heimsókninni.
Sigríður segir sínar pólitísku skoðanir aldrei hafa haft áhrif á það sem hún gerir í sinni vinnu.
„Hefðu aðrir frambjóðendur komið hér til að halda einhvern framhaldsfund af því að þeir voru óánægðir með einhverjar spurningar á fundinum um morguninn og hagað sér með sama hætti, hefði ég brugðist nákvæmlega eins við. Þó það hefði verið formaður Samfylkingarinnar, hefði ég gert það líka, þó ég efast um að hún hefði hugmyndaflugið í þetta.“