Vinstri bakvörðurinn Rúnar, sem valinn var í landsliðshóp Íslands fyrir nýafstaðna leiki við Wales og Svartfjallaland, var á heimavelli í dag með liði Willem II. Elías var hins vegar í fremstu víglínu hjá NAC Breda.
Svo fór að liðin gerðu 2-2 jafntefli eftir að Willem II fékk vítaspyrnu á síðustu andartökum leiksins. Jeremy Bokila skoraði úr henni og í kjölfarið var flautað til leiksloka.
Elías og félagar höfðu komist yfir í fyrri hálfleik og í 2-0 á 53. mínútu, en heimamenn minnkuðu muninn á 61. mínútu og náðu svo að jafna í blálokin.
Skömmu eftir að Willem II minnkaði muninn var þeim Rúnari og Elíasi, sem báðir hófu sinn meistaraflokksferil með Keflavík, báðum skipt af velli.
Liðin eru áfram jöfn að stigum, nú með 16 stig líkt og NEC Nijmegen, í 9.-11. sæti eftir 13 leiki.