„Taugarnar eru fínar ennþá. Auðvitað finnur maður aðeins fyrir því að það er að styttast í þetta. Maður finnur aðeins fyrir fiðrildunum en það er bara gott, það er eðlilegt og þannig vill maður hafa það,“ sagði Arnar í samtali við fréttamann fyrir æfingu íslenska liðsins í keppnishöllinni í Innsbruck í gær.
Ísland hélt utan af klakanum fyrir rúmri viku síðan og spilaði tvo æfingaleiki við Sviss ytra áður en stokkið var yfir til Austurríkis. Báðir leikirnir við Sviss töpuðust með eins marks mun en margt gott sem liðið tekur út úr þeim leikjum þrátt fyrir það.
„Þetta er búið að ganga mjög vel. Ég er auðvitað ekki sáttur við að tapa þessum leikjum í Sviss en heilt yfir fengum við helling út úr því. Undirbúningur hefur gengið vel og æfingar gengið vel. Hópurinn er góður, það fer vel um okkur og allur aðbúnaður til fyrirmyndar. Við höfum ekki yfir neinu að kvarta,“ segir Arnar.

Holland er fyrsta verkefni íslenska liðsins. Þær hollensku eru á meðal sterkustu handboltaliða heims og lentu í fimmta sæti á HM í fyrra, sem og ég Ólympíuleikunum í París í sumar. Eftir því er von á erfiðum leik.
„Þetta leggst bara mjög vel í mig. Þetta er mjög sterkur andstæðingur og í raun búnar að ná mjög góðum úrslitum. Þær gerðu vel á Ólympíuleikunum í sumar. Okkur hlakkar bara til, þetta er verðugt verkefni og erfitt en á sama tíma viljum við vera í þessum sporum með þessum þjóðum og okkur hlakkar til að mæta þeim,“ segir Arnar. En hvað þarf að gera til að skáka þessu hollenska liði?
„Við þurfum að hlaupa vel með þeim. Þær hlaupa gríðarlega og eru grimmar í hlaupunum upp völlinn. Við þurfum að vera tilbúnar að taka á móti þeim og verjast vel eins og alltaf, sem er lykillinn að öllum árangri,“
„Við þurfum að vera hugrakkar, að þora og vera beinskeyttar í öllum aðgerðum sem við förum í. Á sama tíma og við pössum vel upp á boltann og erum skynsamar,“ segir Arnar.
Viðtalið má sjá í spilaranum að ofan.