Ólafur Darri er einn þeirra þjóðþekktu einstaklinga sem lesa innslög þáttarins og hafa látið sig málefni barna og starf Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna varða í gegnum tíðina. Ólafur Darri fór meðal annars sjálfur fyrir nokkrum árum á vettvang fyrir UNICEF til að kynna sér starf stofnunarinnar í þágu barna á Madagaskar.
Í umræddu innslagi var fjallað um raunir hinnar fjögurra ára gömlu Silu frá Gaza sem varð fyrir sprengjuárás og missti nær alla fjölskyldu sína og slasaðist sjálf alvarlega.
Greinilegt var að Ólafur Darri var djúpt snortinn yfir þessari áhrifamiklu sögu enda óhætt að fullyrða að hún láti engan ósnortinn. Sögu Silu úr þættinum Búðu til pláss er hægt að horfa á í spilaranum hér fyrir neðan.