Íslenski boltinn

Blikar kveðja Damir og óska honum góðs gengis í Brúnei

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Damir Muminovic hefur spilað 229 leiki fyrir Breiðablik í efstu deild og unnið tvo Íslandsmeistaratitla með félaginu.
Damir Muminovic hefur spilað 229 leiki fyrir Breiðablik í efstu deild og unnið tvo Íslandsmeistaratitla með félaginu. Vísir/Ernir

Damir Muminovic hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Breiðablik í bili því hann hefur samið við lið DPMM í Brúnei í Suðaustur-Asíu.

„Varnarmaðurinn, tvöfaldi Íslandsmeistarinn og goðsögnin Damir Muminovic hefur ákveðið að elta spennandi tækifæri og reyna fyrir sér í úrvalsdeildinni í Singapúr,“ skrifa Blikar á miðla sína þar sem þeir kveðja leikmanninn.

DPMM er skammstöfun á nafni félagsins sem heitir fullu nafni fótboltafélagið Duli Pengiran Muda Mahkota. Liðið er frá borginni Bandar Seri Begawan.

Muminovic var lykilmaður í Íslandsmeistaraliði Breiðabliks í sumar alveg eins og þegar titilinn vannst sumarið 2022.

Hann hefur leikið 229 leiki fyrir Breiðablik í efstu deild og er annar leikjahæsti leikmaður félagsins frá upphafi á eftir Andra Rafn Yeoman (297). Alls hefur Damir spilað 388 meistaraflokksleiki fyrir Breiðablik.

„Á morgun heldur Damir til Brúnei. Við óskum honum góðs gengis í þessu verkefni, um leið og við segjum takk Damir,“ skrifa Blikar eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×