Fótbolti

Sá yngsti í Meistara­deildinni mögu­lega fjórum árum eldri en allir héldu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Youssoufa Moukoko er nú í láni hjá franska félaginu Nice frá þýska félaginu Borussia Dortmund.
Youssoufa Moukoko er nú í láni hjá franska félaginu Nice frá þýska félaginu Borussia Dortmund. Getty/Marco Steinbrenner

Mikið var látið með Youssoufa Moukoko á sínum tíma þegar hann sló metið yfir yngsta leikmanninn í sögu Meistaradeildar karla í fótbolta. Nýr þýskur heimildaþáttur hefur kannað betur fæðingardag Moukoko og komist að því að hann er mögulega fjórum árum eldri en allir héldu.

Heimildarþáttur á sjónvarpsstöðinni ProSieben ræddi við Joseph Moukoko, sem allir héldu að væri faðir Youssoufa. Joseph viðurkennir þar að Youssoufa sé ekki sonur hans og að hann sé ekki fæddur 20. nóvember 2004 heldur 19. júlí 2000.

Joseph segist einnig hafa falsað gögn um fæðingardag stjúpsonar síns. „Við gerðum það svo að hann ætti meiri mögulega í evrópska fótboltanum,“ sagði Joseph Moukoko í þættinum. Bein Sports fjallar um málið.

Sé þetta rétt þá á hann ekki lengur metið yfir þann yngsta til að spila í Meistaradeildinni, met sem hann eignaðist í desember 2020 sem leikmaður Borussia Dortmund.

Hann var þá líka yfir aldursmörkum þegar hann tók þátt U17 móti með Dortmund árið 2018 og þegar hann hjálpaði 21 ára liði Þjóðverja að vinna Evrópumeistaratitilinn árið 2021.

Borussia Dortmund telur að það hafi öll gögn undir höndunum sem sýndu fram á að Youssoufa væri fæddur árið 2004.

„Skráningar leikmannsins og öll keppnisleyfi hans voru byggð á opinberum gögnum stjórnvalda,“ segir í yfirlýsingu frá félaginu.

Bild hafði áður leitað að en ekki fundið nein gögn um að Youssoufa hefði fæðst árið 2004. Blaðið fann aftur á móti upplýsingar um Youssoufa Mohamadou sem fæddist árið 2000. Hann var þá skráður sonur leigubílstjórans Ousman Mohamadou.

Youssoufa á enn metið yfir að vera yngsti leikmaðurinn til að spila og skora í þýsku deildinni og hann er svo líka sá yngsti til að spila í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×