Þetta er niðurstaðan eftir 1-1 jafnteflið við LASK í Austurríki í gær, sem skilaði Víkingum áfram í keppninni.
Hafa ber í huga að umtalsverður kostnaður fylgir þátttöku í Evrópukeppnum, vegna ferðalaga, en engu að síður ættu Víkingar að standa afar vel að vígi fjárhagslega fyrir komandi ár eftir langt Evrópuævintýri sem enn er ólokið.
Ævintýrið hófst reyndar á tapi í undankeppni Meistaradeildarinnar, í júlí, en síðan þá hafa Víkingar unnið þrjú einvígi í undankeppni Sambandsdeildarinnar, tvo leiki í sjálfri deildarkeppninni og gert tvö jafntefli, og endað í 19. sæti hennar sem tryggði Víkingi sæti í 24-liða úrslitum, eða svokölluðu umspili um sæti í 16-liða úrslitum.
Öllum þessum skrefum fylgir fjárhagslegur ávinningur.

Fengu hálfan milljarð greiddan í september
Víkingar tryggðu sér 175.000 evrur (25 milljónir króna í dag) með því að spila í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildarinnar.
Þeir tryggðu sér svo 175.000 evrur fyrir hverja umferð í undankeppni Sambandsdeildarinnar í sumar, eða alls 525.000 evrur (76 milljónir króna) fyrir þrjár umferðir.
Stærsta fjárhæðin fæst svo fyrir að komast í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar, líkt og Blikar gerðu í fyrra, eða 3.270.000 evrur, og hefur langstærsti hluti þeirrar upphæðar þegar verið greiddur út eða 3,05 milljónir evra þann 27. september. Á gengi þess dags samsvarar það 460 milljónum króna.
Fá 116 milljónir fyrir sigrana tvo
Víkingar bættu svo við sig alls 800.000 evrum (116 milljónir króna í dag) með því að vinna Cercle Brugge og Borac „heima“ á Kópavogsvelli, og 266.000 evrur (38,5 milljónir í dag) með jafnteflum við Noah og LASK á útivelli.
Þá bættust 28.000 evrur við fyrir hvert sæti sem Víkingar náðu frá botni deildarinnar, en þeir enduðu í 19. sæti af 36 liðum og tryggðu sér þannig 504.000 evrur.
Loks bætast við 200.000 evrur fyrir þátttöku í umspilinu um sæti í 16-liða úrslitum.
Dregið verður í umspilið í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 klukkan 12 og gætu Víkingar mætt Panathinaikos frá Grikklandi eða Olimpija Ljubljana frá Slóveníu. Víkingar spila tveggja leikja einvígi við annað þessara liða, 13. og 20. febrúar, og mun sigurliðið komast í 16-liða úrslitin og fá fyrir það 800.000 evrur.
Þegar allt er talið hafa Víkingar tryggt sér að lágmarki 5.747.504 evrur, sem á gengi dagsins samsvarar rúmlega 830 milljónum króna eins og fyrr segir.