Lífið

Mest skreytta jólahúsið í Hvera­gerði

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Kjartan Þór Ólafsson í Hveragerði, sem á heiðurinn af glæsilegum jólaljósum á húsi fjölskyldunnar við Dalsbrún 5.
Kjartan Þór Ólafsson í Hveragerði, sem á heiðurinn af glæsilegum jólaljósum á húsi fjölskyldunnar við Dalsbrún 5. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Kjartan Þór Ólafsson í Hveragerði kallar ekki allt ömmu sína þegar kemur að jólaskreytingum á húsi fjölskyldunnar því þar eru fleiri þúsund perur á húsinu og við það, sem lýsa upp hverfið hjá honum.

Í spilaranum hér í fréttinni sjáum við jólahúsið við Dalsbrún 5 en þar á húsbóndinn á heimilinu og jólabarnið Kjartan Þór heiðurinn af skreytingunum og uppsetningu þeirra. Hann hefur alltaf elskað allt í kringum jólin og er alltaf klæddur jólafötum í desember og með jólahúfu.

„Þetta er bara mitt mesta áhugamál að skreyta svolítið og gleðja fólk og krakka um jólin. Fólk er að koma og taka smá rúnt hér í Hveragerði og skoða þetta líka“, segir Kjartan Þór.

Kjartan segist byrja að setja upp jólaljósin í byrjun nóvember og hann bætir alltaf eitthvað við þau með hverju árinu.

Húsið vekur mikla athygli í Hveragerði og margir sem keyra götuna til að berja húsið augum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En hvað finnst nágrönnunum um öll jólaljósin?

„Ég held að það séu bara flestir ánægðir með þetta, maður hefur ekki fengið neinar kvartanir enn þá“.

Enda er Kjartan með leik í gangi þar sem bæjarbúar geta giskað á hvað hann er með margar jólaperur og eru vegleg verðlaun í boði.

„Sumir segja alveg upp í tvö hundruð þúsund eða upp í þrjú hundruð þúsund en ég er ekki alveg með svo mikið en svona næstum því nálægt því, nei ég segi nú bara svona,“ segir Kjartan Þór kátur í bragði.

Nú er samkeppni á meðal íbúa í Hveragerði hvað margar jólaperur eru á húsinu og í garðinum við Dalsbrún 5.Magnús Hlynur Hreiðarsson





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.