Mark Elínar Klöru á móti Hollendingum í fyrsta leik Íslands á mótinu varð í fimmta sæti í vali á marki mótsins en valið var opinberað á miðlum EHF.
Það var líka full ástæða til að velja mark Elínar Klöru. Hún átti þá þrumuskot fyrir utan punktalínuna og í slána og inn. Algjör óverjandi fyri hollenska markvörðinn sem vissi ekki af boltanum fyrr en hann var kominn í netið fyrir aftan hana.
Skotið hennar mældist á 102 kílómetra hraða og var því engin smá negla.
Elín er kannski þekktari fyrir gegnumbrot sín og að skilja varnarmennina eftir í sporunum en þarna sýndi hún líka að sú getur skotið á markið.
Elín skoraði alls ellefu mörk í þremur leikjum á mótinu þar af þrjú þeirra með skotum yfir utan. Hún varð næstmarkahæsti leikmaður íslenska liðsins á EM í ár og var einnig sú sem gaf næstflestar stoðsendingar.
Hér fyrir neðan má sjá tíu flottustu mörk Evrópumótsins í ár en það flottasta skoraði Ungverjinn Viktória Györi-Lukács í leik á móti Frakklandi.