Veður

Appel­sínu­gular við­varanir og heiðar lokaðar

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Ökumenn eru hvattir til að skoða vef vegagerðarinnar vel áður en haldið er í ferðalag.
Ökumenn eru hvattir til að skoða vef vegagerðarinnar vel áður en haldið er í ferðalag. Vísir/Vilhelm

Veðurspá aðfangadags er miður spennandi en samkvæmt henni stefnir í sannkallað jólahret. Búast má við suðvestanátt í dag, 8-15 m/s og hita í kringum frostmark en síðdegis hvessir rækilega. 

Á vef Veðurstofunnar hafa verið gefnar út gular og appelsínugular viðvaranir víða um land frá klukkan sex. Appelsínugular viðvaranir verða í gildi í Faxaflóa, á Suðurlandi og á Breiðafirði þar til upp úr hádegi á morgun.

Þá verða gular viðvaranir í gildi á höfuðborgarsvæðinu, Suðausturlandi, Vestfjörðum og á Ströndum og Norðurlandi eystra í nótt og fram eftir degi á morgun. 

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að búið er að loka vegum víða um land vegna veðurs. Bæði Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði hefur verið lokað en unnið er að mokstri á þeirri síðarnefndu. Hellisheiði eystri hefur jafnframt verið lokað. 

Ökumenn eru hvattir til að skoða vefinn umferdin.is vel áður en lagt er af stað og meðan á ferðalagi stendur.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef veðurstofunnar segir að gera megi ráð fyrir sunnan og suðvestan strekkings vindi í dag með snjó- eða slydduéljum, en þurrt verði að mestu um landið norðaustanvert. Síðdegis dýpki lægð fyrir vestan land. 

Þá herði á vindinum og í kvöld er búist við suðvestan hvassviðri eða storm með dimmum éljum á sunnan- og vestanverðu landinu. En heldur hægari vindi á Norðaustur- og Austurlandi. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag (jóladagur):

Suðvestan 15-23 m/s með dimmum éljum, en úrkomulítið norðaustan- og austanlands. Frost 0 til 6 stig.

Á fimmtudag (annar í jólum):

Suðvestan 10-18 og slydda eða snjókoma með köflum, en þurrt að kalla á Austurlandi. Hiti kringum frostmark.

Á föstudag:

Suðvestan 8-15 og él, en úrkomulítið norðaustantil. Kólnar í veðri.

Á laugardag:

Norðanátt og snjókoma eða él, en þurrt sunnan heiða. Frost 2 til 10 stig.

Á sunnudag:

Norðaustlæg átt og kalt í veðri. Dálítil él norðaustantil og við suðurströndina, annars þurrt.

Á mánudag:

Norðaustanátt og víða él.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×