Þjóðverjar enduðu í fjórða sæti á Evrópumótinu fyrir rétt tæpu ári síðan og nældu sér svo í silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í París í sumar og spurði blaðamaður Bild Alfreð að því hvort það þýddi að gullverðlaunin kæmu á komandi heimsmeistaramóti.
Alfreð svaraði því hlæjandi: „Nei það eru þrjú landslið sem eru á toppnum. Danska landsliðið er sem stendur á undan öðrum, meira að segja án Niklas landin og Mikkel Hansen (sem hættu eftir Ólympíuleikana). Frakkarnir gætu þurft að finna leið án Dika Mem en ég sé þá þarna við toppinn rétt eins og sænska landsliðið. Á eftir þessum liðum ertu með fjögur til sex lið sem geta strítt þessum topp þremur liðum. Við erum eitt þeirra liða.“
Alfreð var þá inntur eftir svörum varðandi það hvaða önnur lið væru á sama stað og Þýskaland.
„Króatía, Ísland, Noregur og jafnvel Egyptaland. Ég sé króatíska landsliðið sem eitt af líklegustu liðunum til afreka. Þeirra lið býr yfir mikilli reynslu,“ svaraði Alfreð en Íslendingurinn Dagur Sigurðsson er landsliðsþjálfari Króatíu.“
Aðspurður um markmið þýska landsliðsins á komandi heimsmeistaramóti hafði Alfreð þetta að segja en Þýskaland er í Evrópuriðli með landsliðum Tékklands, Póllands og Sviss:
„Fyrsta markmið er að við vinnum okkar riðil og tökum svo stöðuna. Auðvitað langar okkur að komast í undanúrslit aftur. Vonir okkar standa til þess. Árangur okkar á Ólympíuleikunum sýndi mínum leikmönnum að þeir geta unnið þessi svokölluðu stóru lið. Það gefur þeim meira sjálfstraust. En þessa frammistöðu þurfum við að sýna aftur og aftur.“