Fótbolti

Neymar segir að Mbappé hafi verið af­brýði­samur út í Messi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lionel Messi og Kylian Mbappé léku saman hjá Paris Saint-Germain um tveggja ára skeið.
Lionel Messi og Kylian Mbappé léku saman hjá Paris Saint-Germain um tveggja ára skeið. getty/Ian MacNicol

Að sögn Neymars breyttist Kylian Mbappé þegar Lionel Messi gekk í raðir Paris Saint-Germain 2021. Frakkinn varð afbrýðisamur út í Argentínumanninn.

Neymar og Mbappé eru ekki bestu vinir og í hlaðvarpi með Romário spurði gamla hetjan hvort Frakkinn væri pirrandi.

„Nei, hann er það ekki. Við lentum í smá deilum en hann var algjör lykilmaður þegar hann kom. Ég kallaði hann gulldrenginn,“ sagði Neymar.

„Ég spilaði alltaf með honum og sagði að hann yrði einn af þeim bestu. Ég hjálpaði honum alltaf, talaði við hann og við snæddum kvöldverð saman.“

PSG tefldi fram sannkölluðu stórstjörnutríói eftir að Messi kom til liðsins frá Barcelona 2021. En eftir það skynjaði Neymar breytingu á Mbappé.

„Við áttum nokkur góð ár saman en eftir að Messi kom varð hann smá afbrýðisamur. Það voru einhver átök, breyting á hugarfari.“

Neymar segir að PSG hafi átt í vandræðum í stærstu leikjunum vegna stórra egóa leikmanna liðsins.

„Það er gott að hafa egó en þú verður að vita að þú spilar ekki einsamall. Þú þarft annan við hlið þér. Alls staðar voru stór egó. Það virkar ekki. Ef enginn hleypur eða hjálpar er ómögulegt að vinna nokkuð,“ sagði Neymar.

Brassinn hefur nær ekkert spilað með Al Hilal síðan hann kom til liðsins haustið 2023 vegna erfiðra meiðsla. Þjálfari Al Hilal, Jorge Jesus, sagði að Neymar væri frjálst að ákveða næstu skref hjá sér en hann var ekki skráður til leiks hjá liðinu fyrir seinni hluta tímabilsins í Sádi-Arabíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×