Það var nokkuð óvænt að út spurðist að Skarphéðinn hefði sagt starfi sínu lausu í desember. Hann sagði alla eiga sinn vitjunartíma og nú væri komið að tímamótum. Áramótin væru ljómandi tími til að söðla um.
„Það er kominn góður tími og tími á annars konar áskoranir fyrir mig. Og tími fyrir nýtt blóð, í starf sem er krefjandi. Það kallar á endurnýjun reglulega. Þetta er þýðingarmikið starf og mikilvægt að sjá til þess að það væri kominn tími á endurnýjun og nýtt blóð.“
Margrét Jónasdóttir aðstoðardagskrárstjóri hefur sinnt starfinu frá áramótum. Það hefur enn ekki verið auglýst.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri segir í svari við skriflegri fyrirspurn að til standi að setja út auglýsingu fyrir starfið og febrúar eða mars sé líklegu tímasetning slíkra skilaboða.
Telja má líklegt að einhverja klæi í puttana að fá um það að segja í hvaða verkefni Ríkisútvarpið setji peningana varðandi innlenda dagskrá í sjónvarpi. Margrét aðstoðardagskrárstjóri er reynslumikil í bransanum og fleiri reynsluboltar eru á lausu. Eva Georgsdóttir sjónvarpsstjóri Stöðvar 2 sem nýlega sagði starfi sínu lausu og sömuleiðis Þóra Björg Clausen fyrrverandi dagskrárstjóri Stöðvar 2. Svo mætti nefna Magnús Ragnarsson og Þórhall Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra miðla hjá Símanum og Sýn.