Körfubolti

„Meiri ró og betri ára yfir Grinda­vík“ með Jeremy Pargo

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jeremy Pargo spilar enn í gulu og bláu en nú fyrir lið Grindavíkur, ekki Golden State Warriors.
Jeremy Pargo spilar enn í gulu og bláu en nú fyrir lið Grindavíkur, ekki Golden State Warriors.

Jeremy Pargo spilaði sinn fyrsta leik fyrir Grindavík í Bónus deild karla síðasta fimmtudag. Sérfræðingarnir á Körfuboltakvöldi voru mjög hrifnir af hans frammistöðu. 

Grindavík vann Þór Þorlákshöfn í síðustu umferð eftir æsispennandi lokakafla í leiknum. Jeremy Pargo stýrði sóknarleik Grindvíkinga af mikilli snilld síðustu mínúturnar og negldi svo síðasta naglann í kistu Þórsara með þriggja stiga skoti lengst utan af velli.

„Maður tók í raun ekki eftir hans miklu hæfileikum fyrr en undir lokin fannst mér. Þegar þurfti að halda á einhverjum alvöru stjórnanda. Þetta er maður með reynslu og hæfileika, kominn af sínu besta skeiði, en engu að síður frábær leikmaður,“ sagði Sævar Sævarsson.

Grindvíkingar hafa oft virkað ansi pirraðir og illa stemmdir andlega í vetur en það var töluvert léttara yfir mönnum í síðasta leik. Þjálfarinn Jóhann Árni taldi það meðal annars innkomu Jeremy Pargo í liðið og hans nærveru á æfingum í vikunni að þakka.

„Mér finnst bara meiri ró yfir Grindavík með hann, maður sér það að hann stýrir tempó-inu. Hann á eftir að komast betur inn í þetta en það er miklu betri ára yfir Grindavíkurliðinu en hefur verið… Þeir eru betra lið en Þór, en það er fullt af hlutum sem þeir þurfa að bæta ef þeir ætla að fara að hóta titli,“ sagði Helgi Már Magnússon en alla umræðuna má finna í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Góð frumraun Jeremy Pargo fyrir Grindavík

Grindavík er í fjórða sæti deildarinnar þegar fimm umferðir eru eftir, næsti leikur er heima gegn Álftanesi á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×