Arndís Anna var þingmaður Pírata árin 2021 - 2024, en gaf ekki kost á sér í alþingiskosningunum 30. nóvember síðastliðinn. Hún greindi frá framboðinu í færslu á Facebook.
„Ég er 43 ára lögfræðingur, húmanisti og móðir. Ég hef verið virkur félagi í Siðmennt um árabil, flutti hugvekju við setningu Alþingis árið 2013 og hef verið félaginu innan handar og ljáð því þekkingu mína og rödd í gegnum árin, sem lögfræðingur og síðar sem alþingismaður.“
Siðmennt er félag siðrænna húmanista á Íslandi. Á heimasíðu þeirra segir að siðrænir húmanistar leggi áherslu á siðræn gildi og þekkingarleit án vísana í yfirnáttúruleg fyrirbrigði.
Framboð mennsku og mannréttinda
Hún segir að hvatinn að framboðinu sé fyrst og fremst staða mennsku og mannréttinda í heiminum, vaxandi ásókn andhúmanískra afla, aukin sundrung, útskúfun og afmennskun, sem að hennar mati kalli á styrkari samstöðu þeirra sem trúa á manneskjuna og hið mennska. Þeirra sem hafi húmaníska hugsjón.
„Ég er lögfræðingur að mennt, sérhæfð í mannréttindum og með hálfkláraða doktorsgráðu í trúfrelsi sérstaklega. Fyrri meistararitgerðin mín var á sviði réttarheimspeki en sú síðari á sviði mannréttinda og fjallaði um trúfrelsi í Evrópu,“ segir Arndís.
Núverandi formaður Siðmenntar er Inga Auðbjörg Straumland, en hún tilkynnti um það í síðustu viku að hún hyggðist ekki sækjast eftir endurkjöri.
Arndís Anna og Svanur Sigurbjörnsson læknir hafa bæði lýst yfir framboði til formanns, en Svanur greindi frá framboði sínu í lokuðum hópi Siðmenntar.
Arndís Anna segist í samtali við fréttastofu ekki vita af fleiri frambjóðendum.
Atkvæðagreiðslan fari fram á aðalfundi Siðmenntar 1. mars næstkomandi.