Albert hélt um mjóbakið þegar hann skokkaði af velli á 74. mínútu en hann hafði komið inn á sem varamaður tuttugu mínútum áður.
Alberti tókst ekki frekar en öðrum leikmönnum Fiorentina að gera sig líklegan til að skora í leiknum en hann fékk gult spjald á 64. mínútu þegar hann var of seinn í tæklingu.
Erfitt er að segja til um meiðsli Alberts en af sjónvarpsmyndum að dæma virtist hann ekki mjög þjáður og vonandi engin ástæða til að óttast að landsleikirnir við Kósovó, 20. og 23. mars, séu í nokkurri hættu.

Sigur Como var sanngjarn í dag en Assane Diao kom liðinu yfir undir lok fyrri hálfleiks þegar hann stakk varnarmenn Fiorentina af og skoraði framhjá David de Gea.
Nico Paz skoraði svo seinna mark Como og það var af dýrari gerðinni, frábært skot í stöng og inn.
Fiorentina er enn í harðri baráttu um Evrópusæti, og þá helst sæti í Meistaradeild Evrópu, en liðið er í 6. sæti með 42 stig, fjórum stigum á eftir Lazio sem er í 4. sæti en öruggt er að fjögur efstu liðin komast í Meistaradeild Evrópu. Como er í 13. sæti með 25 stig, nú fimm stigum frá fallsæti.