Carragher fékk talsverða gagnrýni fyrir ummæli sín um að Afríkukeppnin væri ekki jafn stórt mót og til dæmis EM. Hann sagði jafnframt að það að Mohamed Salah spilaði í henni ynni ekki með honum þegar kæmi að möguleikanum á að vinna til verðlauna á borð við Gullboltann.
Ferdinand fannst ekki mikið til ummæla Carraghers koma og gagnrýndi þau í hlaðvarpi sínu.
„Já, Afríkukeppnin fær ekki sama stuðning og EM en það þýðir ekki að þú eigir að gengisfella hana. Það ætti að bera meiri virðingu fyrir henni,“ sagði Ferdinand.
„Ég skil hvað Jamie er að segja en er ekki sammála því. Það er sök meirihlutans og er ekki rétt. Ég held að sambönd eins og FIFA ættu að tala um Afríkukeppnina eins og EM og Copa América. Jamie hefur rétt fyrir sér. Ef Salah myndi vinna Afríkukeppnina myndi það ekki hafa nein áhrif á neinn þegar þeir kjósa fyrir Gullboltann sem er rangt.“
Carragher var ekki sáttur við þessi ummæli Ferdinands.
„Ég sagði þetta ekki trúðurinn þinn. Hættu að stökkva á þennan vagn eins og þú gerir alltaf,“ skrifaði Carragher á Instagram.
Salah hefur ekki enn unnið Afríkukeppnina á ferlinum en hann varð í 2. sæti með egypska liðinu 2017 og 2021.
Salah hefur átt frábært tímabil með Liverpool og er bæði marka- og stoðsendingahæstur í ensku úrvalsdeildinni. Rauði herinn er með ellefu stiga forskot á toppi hennar.