Ísraelsk yfirvöld kanna nú jarðneskar leifar mannanna til að reyna að ganga úr skugga um að um réttu mennina sé að ræða: Shlomo Mansour, 86 ára, Itzik Elgarat, 69 ára, Ohad Yahalomi, 50 ára, og Tsachi Idan, 50 ára.
Líkin voru afhent í kyrrþei en Ísraelsmenn höfðu gagnrýnt samtökin harðlega fyrir að vanvirða gíslana með því að gera lausn þeirra og afhendingu líka að opinberum viðburðum.
Í morgun hófu Ísraelar að sleppa yfir 600 palestínskum föngum úr haldi í Ísrael í staðinn fyrir líkamsleifarnar en skiptin eru hluti af vopnahléssamkomulaginu sem náðist á dögunum.
Um er að ræða síðustu fangaskiptin í þessum fyrsta fasa vopnahlésins en honum lýkur á laugardaginn kemur.