Upp­gjörið: Grinda­vík - Kefla­vík 101-91 | Gula dreymir um heima­vallarrétt

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kane lætur sér fátt um finnast.
Kane lætur sér fátt um finnast. Vísir/Hulda Margrét

Grindavík lagði Keflavík með tíu stiga mun og getur nú blandað sér í baráttuna um heimavallarrétt í úrslitakeppni Bónus-deildar karla í körfubolta. Keflavík er hins vegar enn að berjast um sæti í úrslitakeppninni.

Grindvíkingar byrjuðu leikinn betur og áttu í litlum vandræðum með að setja stig á töfluna gegn daufri vörn Keflavíkur. Lagio Grantsaan byrjaði mjög vel hjá Grindvíkingum og var kominn með 8 stig snemma leiks en Daniel Mortensen lenti hins vegar í villuvandræðum og spilaði lítið í fyrri hálfleiknum.

Lagio Grantsaan treður.Vísir/Hulda Margrét

Staðan var 28-22 eftir fyrsta leikhlutann en Keflavík byrjaði annan leikhluta betur og minnkaði muninn strax. Nigel Pruitt kom inn af miklum krafti og náðu Keflvíkingar forystunni í stöðunni 41-39. Þá bitu Grindvíkingar frá sér á ný. DeAndre Kane og Jeremy Pargo settu stig á töfluna og eftir að Kane skoraði fjögur snögg stig úr tveimur hraðaupphlaupum og kom Grindavík í 58-48 þá tóku Keflvíkingar leikhlé. Staðan í hálfleik 59-50 heimamönnum í vil.

Nigel Pruitt kom flottur inn af bekknum hjá Keflavík.Vísir/Hulda Margrét

Í þriðja leikhluta byrjuðu heimamenn á að koma muninum upp í sextán stig og virtust ætla að stinga af með leikinn. Keflvíkingar svöruðu hins vegar af krafti. Þeir náðu 9-0 kafla og söxuðu á forskotið en vantaði að taka skrefið að jafna og komast yfir.

Svipað var uppi á teningunum í fjórða leikhluta. Keflvíkingar gerðu sig oft líklega en Grindavík átti alltaf einhverja ása uppi í erminni. Hvort sem það var tromp frá DeAndre Kane, þristur frá Kristófer Breka eða tvistur frá Jeremy Pargo. 

Bragi Guðmundsson og DeAndre Kane.Vísir/Hulda Margrét

Þriggja stiga karfa frá fyrirliðanum Ólafi Ólafssyni með hálfa mínútu eftir á klukkunni kláraði leikinn svo endanlega. Grindavík fagnaði 101-91 sigri og skilur þar með Keflvíkinga eftir í brasi í baráttunni um sæti í úrslitakeppni. Sjálfir eru Grindvíkingar í 6. Sæti, ekki öruggir um sæti í 8-liða úrslitum en stigu í kvöld stórt skref í þá átt.

Atvik leiksins

Í stöðunni 84-80 setti DeAndre Kane niður tvö þriggja stiga skot með 40 sekúndna millibili. Jók hann þá muninn í tíu stig nánast upp á eigin spýtur og gaf Grindvíkingum andrými á mikilvægum tímapunkti í leiknum.

DeAndre Kane skorar hér tvö af sínum 27 stigum í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Stjörnur og skúrkar

Áðurnefndur Kane var algjörlega frábær hjá Grindavík í kvöld. Hann skoraði 27 stig, tók 10 fráköst, gaf 6 stoðsendingar og stal fjórum boltum þar að auki. Kane setti stór skot þegar á þurfti að halda og ásamt Jeremy Pargo og Lagio Grantsaan leiddi hann sóknarleik Grindavíkur ásamt því að spila vel í vörninni.

Kristófer Breki Gylfason setti þrjú stór þriggja stiga skot niður í seinni hálfleik og spilaði fínan varnarleik þar að auki.

Kristófer Breki Gylfason setti niður þrjú mikilvæg þriggja stiga skot í síðari hálfleiknum.Vísir/Hulda Margrét

Ty-Shon Alexander átti góða spretti hjá Keflavík en var týndur á köflum. Nigel Pruitt og Remu Raitanen komu með mikla orku inn af bekknum og klikkaði sá finnski ekki á skoti í leiknum. Keflavík þarf hins vegar meira frá Hilmari Péturssyni og Igor Maric, sérstaklega þegar aðrir lykilmenn eru fjarverandi vegna meiðsla.

Dómararnir

Grindvíkingar voru ósáttir með ýmsa dóma, sérstaklega í fyrri hálfleik.Þ eir fengu fjórtán villur í fyrri hálfleiknum en Keflvíkingar sex. Einhverjar af villum heimamanna voru ódýrar en sumar klaufalegar.

Ólafur Ólafsson setur upp undrunarsvip.Vísir/Hulda Margrét

Heilt yfir dæmdu dómararnir ágætlega, í tilfinningaríkum leik koma alltaf upp vafaatriði sem menn verða seint eða aldrei sammála um.

Stemmning og umgjörð

Það var vel mætt í Smárann í dag, Grindvíkingar fjölmennari og háværari en Keflvíkingar voru sömuleiðis nokkuð margir og áttu sína spretti í stúkunni þó Stinningskaldi hafi haldið stemmningunni gangandi.

Viðtöl

„Ekki viss um að þessi lína hefði verið ef þetta væru tvö lið að spila brjálaða vörn“

„Ótrúlega mikilvægur sigur. Keflvíkingar hefðu getað jafnað okkur að stigum en þess í stað erum við með tvo leiki á þá og innbyrðisviðureignir. Í þessum pakka er rosalega gott að geta slitið sig allavega frá einu liðinu,“ sagði Jóhann Árni Ólafsson annar af þjálfurum Grindavíkur eftir 101-91 sigur á Keflavík í kvöld.

Grindvíkingar voru nánast alltaf skrefinu á undan Keflavík í leiknum en gekk illa að slíta sig frá gestunum sem í nokkur skipti náðu að koma leiknum í spennandi stöðu.

Jeremy Pargo var öflugur í kvöld þrátt fyrir að hitta illa fyrir utan þriggja stiga línuna.Vísir/Hulda Margrét

„Við vorum alltaf að tala um vörn. Við vissum að við myndum skora en við áttum mjög góðar varnarfærslur inn á milli og svo kom hræðilegt þar á milli. Þetta var ákefð, við vorum að reyna skipta á þeim og gefa skotmönnunum of mikið pláss.“ 

„Við vildum að þeir myndu setja boltann í gólfið og of oft þurftu þeir ekki að gera það og þá ertu í vandræðum á móti Keflavík. Um leið og við náðum að ýta þeim í að keyra á körfuna þá gekk þetta betur.“

DeAndre Kane og Lagio Grantsaan spiluðu báðir vel í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Grindvíkingar lentu í villuvandræðum í fyrri hálfleik og að honum loknum voru Lagio Grantsaan og Daniel Mortensen báðir komnir með þrjár villur. Grindvíkingar fengu fjórtán villur í fyrri hálfleik gegn sex sem Keflvíkingar fengu og Jóhann Árni tjáði sig um þetta villufjör eftir leikinn.

„Þetta ruglar í róteringunni en þetta er partur af leiknum. Mér fannst dæmt rosalega mikið á okkur í fyrri hálfleik og þetta riðlaði varnarleiknum. Það er erfitt að spila vörn þegar er flautað í hvert einasta skipti. Ég held að það hefði ekki verið þessi lína ef þetta hefðu verið tvö lið að spila brjálaða vörn. Mér fannst Keflavík frekar „soft“ og einhvern veginn voru okkar menn að gjalda fyrir það og lentu í villuvandræðum.“

Daniel Mortensen lenti snemma í villuvandræðum í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

DeAndre Kane var stórkostlegur í liði Grindavíkur í kvöld og Jóhann Árni jós yfir hann hrósi fyrir hans frammistöðu. Tveir þristar frá Kane í fjórða leikhluta gerðu mikið fyrir Grindvíkinga.

„Þetta var líka á þeim tímapuntki þegar við vorum með [Jeremy] Pargo útaf og vorum að gefa honum nokkrar mínútur fyrir lokasprettinn.“ 

„Kane steig heldur betur upp á þeim tíma og hann er bara búinn að vera magnaður síðustu mánuði. Ótrúlegt framlag og ekki allt sem sést á tölfræðiblaði. Ótrúlegur og á æfingum líka. Hann er ekkert unglamb heldur, hann gjörsamlega gefur allt í þetta alltaf. Á hverri einustu æfingu líka, ótrúlega mikilvægur fyrir okkur. Hvort sem hann hittir úr skotum, það hjálpar auðvitað, en öll hin skiptin líka,“ sagði Jóhann Árni að endingu.

„Í heildina var þetta ekki nógu gott“

Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur var ánægður með ákveðna kafla í leik Keflavíkur gegn Grindavíkur í kvöld en sagði varnarleikinn hafa verið of linan.

Sigurður Ingimundarson segir sínum mönnum til.Vísir/Hulda Margrét

„Það voru kaflar þar sem við vorum of linir í vörninni en þegar við gerðum það sem var beðið um þá spiluðum við frábærlega á köflum. Við vorum að spila við mjög gott lið og margir sterkir leikmenn þar sem settu erfið skot. Þegar við vorum að nálgast þá þá einhvern veginn náðu þeir góðum skotum.“

„Vörnin var ekki nógu góð og við vorum of linir. Þriðja leikhlutann gerðum við vel og stóran hluta af fjórða. En í heildina var þetta ekki nógu gott.“

Igor Maric hefur oft spilað betur en í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Staða Keflavíkur í deildinni er nokkuð flókin. Liðið er í 8. sæti og með jafnmörg stig og ÍR og KR sem mætast á morgun. Eftir þann leik verða Keflvíkingar ekki lengur í úrslitakeppnissæti.

„Við vissum að þetta væri þröngt og flókið. Við tökum bara einn leik, þetta gekk ekki og þá er það bara næsti leikur. Við setjum bara allt í þann leik og svo sjáum við til þegar leikirnir eru búnir hvar við erum.“

Hilmar Pétursson skýtur hér þriggja stiga skoti en hann skoraði aðeins átta stig í leiknum.Vísir/Hulda Margrét

Halldór Garðar Hermannsson og Sigurður Pétursson voru báðir fjarverandi hjá Keflvíkingum í kvöld vegna meiðsla. Sigurður sagði ljóst hvort þeir yrðu með í næsta leik gegn Tindastóli á Sauðárkróki.

„Ég er ekki viss, ég veit það ekki ennþá. Það er vika í það ennþá og það kemur í ljós þá.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira