Sport

Tæpur einn og hálfur milljarður í boði fyrir upp­lýsingar um Ólympíufara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ryan Wedding þykir sérlega hættulegur.
Ryan Wedding þykir sérlega hættulegur. afp/fbi

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, bætti á þriðjudaginn hinum 43 ára Kanadamanni, Ryan Wedding, á listann yfir tíu eftirlýstustu glæpamennina. Wedding keppti á Vetrarólympíuleikunum 2002 en fetaði síðan glæpabrautina.

Hvorki meira né minna en tíu milljónir Bandaríkjadala eru í boði fyrir upplýsingar sem leiða til handtöku Weddings. Það gera tæplega 1,4 milljarð íslenskra króna.

Wedding er eftirlýstur af FBI fyrir morð og eiturlyfjasmygl. Hann er talinn vera einn af aðalmönnunum í alþjóðlegum eiturlyfjahring sem smyglaði miklu magni af kókaíni frá Kólumbíu til Kanada og Bandaríkjanna.

Samkvæmt upplýsingum frá FBI þykir Wedding mjög hættulegur og allt er gert til að hafa hendur í hári hans. Talið er að eiturlyfjahringurinn hafi smyglað sextíu tonnum af kókaíni á ári auk þess sem Wedding á að hafa komið að því að skipuleggja fjögur morð.

Wedding keppti í snjóbrettasvigi á Vetrarólympíuleikunum í Salt Lake City fyrir 23 árum. Hann endaði þar í 24. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×