Enski boltinn

Yfir­maður Manchester United segir fé­lagið taka á­hættu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Jim Ratcliffe, hluteigandi í Manchester United, sést hér fyrir framan líkan af nýja Manchester United leikvanginum og umhverfi hans.
Sir Jim Ratcliffe, hluteigandi í Manchester United, sést hér fyrir framan líkan af nýja Manchester United leikvanginum og umhverfi hans. @ManUtd

Omar Berrada, framkvæmdastjóri Manchester United, fer ekkert í felur með það að sú ákvörðun félagsins að byggja nýjan stórglæsilegan leikvang gæti haft talsverð áhrif á rekstur félagsins á næstu árum.

Manchester United tilkynnti í gær um að félagið ætli að byggja nýjan hundrað þúsund manna leikvang við hlið Old Trafford. Það er búist við því að þessi nýi leikvangur muni kosta meira en tvo milljarða punda eða meira en 353 milljarða íslenskra króna.

Old Trafford tekur 74 þúsund manns í dag en hann er kominn til ára sinna og lítið hefur verið gert fyrir hann undanfarin ár. Hann hefur engu að síður verið heimavöllur félagsins frá árinu 1910.

„Það er auðvitað áhætta í þessu og við gætum þurft að minnka peninginn sem við höfum til að eyða í nýja leikmenn. Það er samt eitthvað sem við munum samt reyna að forðast,“ sagði Omar Berrada við Reuters.

Manchester United er aðeins í fjórtánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar og þarf svo sannarlega á liðstyrk að halda í sumar ekki síst til að nýi þjálfarinn, Ruben Amorim, fá réttu leikmennina fyrir leikkerfið sem hann er harður á að spila.

„Við viljum alls ekki hætta að fjárfesta í leikmannahópnum og við verðum að gera það ef við ætlum að vera samkeppnishæfir á meðan við byggjum nýja leikvanginn,“ sagði Berrada.

„Allt sem við höfum verið að gera undanfarna mánuði er bara að bregðast við ástandinu í félaginu í dag sem var það að félagið var að blæða peningum. Þetta eru auðvitað mjög erfiðar ákvarðanir og við hötum það að sjá fólk missa vinnuna,“ sagði Berrada.

„Um leið og við hættum að tapa peningum þá getum við farið að koma okkur á betri stað fjárhagslega. Þá höldum við áfram að fjárfesta í liðinu og svo auðvitað að geta hafa það metnaðarfulla markmið að byggja nýjan leikvang,“ sagði Berrada.

Hann hefur líka mikla trú á portúgalska þjálfaranum Ruben Amorim eins og eigandinn Sir Jim Ratcliffe.

„Ég myndi elska það að opna nýjan leikvang með Ruben enn sem þjálfara liðsins,“ sagði Berrada.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×