Handbolti

Orri skoraði mark um­ferðarinnar í Meistara­deildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jöfnunarmark Orra Freys Þorkelssonar gegn Wisla Plock tryggði Sporting sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.
Jöfnunarmark Orra Freys Þorkelssonar gegn Wisla Plock tryggði Sporting sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. getty/Andrzej Iwanczuk

Íslenski landsliðsmaðurinn Orri Freyr Þorkelsson skoraði mark umferðarinnar í Meistaradeild Evrópu í handbolta.

Eftir hverja umferð í riðlakeppninni birtist myndband af fimm bestu mörkunum á samfélagsmiðlum Meistaradeildarinnar. Og á toppi listans fyrir fjórtándu og síðustu umferð riðlakeppninnar trónir Orri.

Hornamaðurinn skoraði nefnilega jöfnunarmark Sporting gegn Wisla Plock rétt áður en leiktíminn rann út. Leikar fóru 29-29 en með stiginu tryggðu Portúgalarnir sér sæti í átta liða úrslitum.

Orri hefur leikið mjög vel með Sporting á tímabilinu og sló í gegn með íslenska landsliðinu á HM í janúar. Hann skoraði 71 mark í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Orri er ekki eini Íslendingurinn á listanum yfir bestu mörkin í 14. umferð Meistaradeildarinnar því Haukur Þrastarson, leikmaður Dinamo Búkarest, er í 5. sætinu.

Haukur skoraði sérstaklega snoturt mark í sigri Dinamo Búkarest á Fredericia, 32-37. Selfyssingurinn braust þá í gegnum vörn danska liðsins og sneri boltann laglega í netið.

Haukur skoraði fimm mörk í leiknum gegn Fredericia og 44 mörk alls í riðlakeppninni. Hann gaf einnig sex stoðsendingar í leiknum í Danmörku. Dinamo Búkarest fer í umspil í sæti í átta liða úrslitum þar sem liðið mætir Magdeburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×