Skoðun

Hetju­sögur af ó­þekktum manni – Ég kýs Þor­stein Skúla sem for­mann VR

Sólveig Guðjónsdóttir skrifar

Ég hef verið VR félagi til margra ára en undanfarnar vikur hef ég verið að fylgjast með kosningabaráttunni í VR og þeim greinum sem birst hafa um sitjandi formann. Ef marka má skrif stuðningsmanna hennar, þá er hún algjörlega ómissandi, hreint út sagt dásamleg manneskja, frábær, hress og létt í skapi. Það virðist næstum því eins og þetta sé í starfslýsingu formanns VR: að vera „hress og skemmtileg“ en ekki að berjast fyrir félagsfólk VR af fullum krafti.

Ég ætla ekki að segja neina slíka hetjusögu hér. Ég ætla ekki að tala um einhverja goðsagnakennda frammistöðu eða tilfinningalega upphafningu á persónuleika. Nei, ég ætla að segja frá manni sem ég hef kynnst í hversdagsleikanum, manni sem hefur ávallt verið tilbúinn að leggja sitt af mörkum, hvort sem það er innan VR eða í daglegu lífi. Þorsteinn Skúli er ekki sá sem slær sér upp með stórum orðum eða gerir sig að aðalpersónu í sögunum sem hann segir. En hann er sá sem stendur þétt við bakið á fólki.

Ég man eftir einni lítilli sögu sem lýsir honum vel: Þegar samstarfsmaður minn átti í erfiðleikum með að fá réttindi sín viðurkennd af vinnuveitanda, var það Þorsteinn sem steig inn, ekki með hávaða og látum, heldur með þrautseigju og úthugsaðri nálgun. Hann veit að orkan á að fara í að leysa vandamál, ekki í að búa til sviðsettar hetjusögur um sjálfan sig. Hann er líka þessi týpa sem á enn gamla VR-bollann sinn eftir öll þessi ár, því fyrir honum snýst VR ekki um tískubylgjur eða stór orð, heldur um raunverulegt starf og tryggð við félagið og fólkið í því. Hann hefur unnið innan VR um árabil, þekkir bæði styrkleika og veikleika þess og veit að samband félagsfólks og forystu á að byggja á trausti og gagnsæi. Ég kýs Þorstein Skúla ekki vegna þess að hann sé „hress og skemmtilegur“. Ég kýs hann vegna þess að hann er trúverðugur, harðduglegur og sannarlega tilbúinn að vinna fyrir félagsfólk VR. Ég kýs hann vegna þess að ég veit að hann mun setja okkar hagsmuni í fyrsta sæti, ekki sitt eigið sviðsljós. Ég hvet ykkur öll til að gera slíkt hið sama.

Kjósið rétt. Kjósið Þorstein Skúla Sveinsson sem formann VR.

Félagi í VR til margra ára.




Skoðun

Skoðun

Lokum.is

Alma Hafsteinsdóttir skrifar

Sjá meira


×