Franski dómarinn Benoit Bastien hafði í nógu að snúast á Old Trafford í gær. Hann dæmdi fjórar vítaspyrnur í leiknum og lyfti rauða spjaldinu einu sinni.
Mikel Oyarzabal kom Real Sociedad yfir með marki úr víti á 10. mínútu en Bruno Fernandes jafnaði með öðru vítamarki sex mínútum síðar. Portúgalinn skoraði svo öðru sinni af vítapunktinum í upphafi seinni hálfleiks.
Bastien dæmdi svo fjórða vítið þegar Hamari Traoré var álitinn hafa brotið á Dorgu. Daninn benti hins vegar Bastien á að Traoré hefði ekki brotið á honum og bað hann um að taka dóminn til baka. Þess þurfti reyndar ekki þar sem VAR-dómari leiksins breytti ákvörðuninni þar sem Traoré fór fyrst í boltann.
Eftir leikinn, sem United vann með fjórum mörkum gegn einu, kvaðst Ruben Amorim, knattspyrnustjóri liðsins, vera hreykinn af Dorgu.
„Þetta var gott. Ég er stoltur af honum. Ég get samt ekki sagt að ég hefði brugðist eins við ef staðan hefði verið 0-0 eða við að tapa,“ sagði Amorim.
United mætir Lyon í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Næsti leikur liðsins í ensku úrvalsdeildinni er gegn Leicester City á sunnudagskvöldið.