Palmer var ekki í leikmannahópi Chelsea er liðið tapaði 1-0 gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í dag, en hann meiddist á æfingu á dögunum.
Þetta var í fyrsta skipti síðan í apríl á síðasta ári sem Chelsea er án Palmers, en hann hefur verið í algjöru lykilhlutverki hjá þeim bláklæddu undanfarna mánuði.
Það kom því líklega engum á óvart þegar nafn hans birtist á blaðinu þegar Thomas Tuchel, nýráðinn landsliðsþjálfari Englands, opinberaði enska landsliðshópinn í fyrsta skipti.
Enzo Maresca, þjálfari Chelsea, hefur hins vegar ekki trú á því að Palmer geti tekið þátt í leikjum Englands gegn Albaníu og Lettlandi.
„Ef ég á að vera hreinskilinn þá held ég að hann verði ekki klár í landsleikina,“ sagði Maresca á blaðamannafundi eftir tapið gegn Arsenal.
„Hann meiddist á æfingu í gær og þetta eru vöðvameiðsli. Hann þarf að fara í myndatöku og það verður ekki fyrr en á mánudagsmorgun,“ bætti Maresca við.
England leikur tvo heimaleiki í komandi landsleikjaglugga. Fyrri leikurinn er gegn Albaníu næstkomandi föstudag og sá seinni gegn Lettlandi á mánudaginn eftir viku.