Skoðun

Fjar­könnun og sjálf­stæði þjóðar

Karl Arnar Arnarson skrifar

Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að setja saman stefnu í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um Íslands. Í viðtölum við Þor­gerði Katrínu Gunn­ars­dótt­ur ut­an­rík­is­ráðherra hefur komið fram að stefnan muni fjalla um „nauðsyn­leg­an varn­ar­viðbúnað, skipu­lag og getu sem þurfi að vera til staðar á Íslandi“ og „sjá til þess að hér sé til staðar nauðsyn­leg þekk­ing, geta og innviðir til að tryggja ör­yggi Íslands“. Undirritaður vill benda á atriði sem snertir einmitt öryggi þjóðar og getu hennar til að bregðast við óvæntum atburðum hvort sem um er að ræða náttúru eða stríðsvá.

Um daginn gerðist það að útvörður vestrænna lýðræðisgilda skrúfaði fyrir bæði hefðbundna hernaðaraðstoð og aðgang að upplýsingum til Úkraínu. Flestir vita sjálfsagt hvað átt er við með því fyrra en það hefur verið áhugavert að heyra sérfræðinga útskýra hvað það þýðir í raun að hafa ekki lengur aðgang að upplýsingum á neyðartímum. Staðan er einfaldlega sú í nútímahernaði að sá sem veit, ræður og sá sem stýrir upplýsingum stjórnar framgangi atburðarásarinnar.

Kort eru í dag mikilvæg gögn og koma við sögu í daglegri starfsemi flestra lykilstofnanna íslenska ríkisins. Allur búnaður og þekking til að safna loftmyndum er í dag til á Íslandi og við erum engum utanaðkomandi háð. Það er ekki hægt að tryggja íslensk yfirráð á öflun þessara gagna nema að nota til þess flugvélar með sérhæfðum búnaði. Með hefðbundnum drónum er aðeins hægt að mynda lítil landsvæði og gervitungl eru háð veðurfari auk þess að þeim er stýrt af aðilum sem koma ekki til með að forgangsraða Íslandi hátt ef óvæntir atburðir gerast. Í dag geta Íslendingar brugðist við og myndað stóra hluta landsins með nánast engum fyrirvara og sú geta er einfaldlega hluti af þjóðaröryggi. Á þessu hefur hingað til ríkt takmarkaður skilningur og markvisst verið unnið gegn þessu sjálfstæði.

Stofnanir eins og Almannavarnir, Ríkislögreglustjóri, Landhelgisgæslan ofl. verða að hafa aðgang að nákvæmum loftmyndum og hæðargögnum ef óvæntir atburðir gerast en eins og staðan er í dag er ekkert sem tryggir þann aðgang. Þvert á móti hafa verið teknar ákvarðanir undanfarin ár að leggja niður alla þekkingu og tækjabúnað sem til er á Íslandi á þessu sviði og afmá þannig yfir 30 ára sögu fjarkönnunar á Íslandi.

Höfundur er framkvæmdastjóri Loftmynda ehf.




Skoðun

Skoðun

Kjöt og krabba­mein

Hulda María Einarsdóttir,Jórunn Atladóttir,Sigurdís Haraldsdóttir skrifar

Sjá meira


×