Úkraínskir hermenn lögðu hald á persónuskilríki Kínverjanna, greiðslukort og aðrar persónuupplýsingar í Donetsk-héraði í Austur-Úkraínu, að sögn Volodýmýrs Selenskíj, forseta Úkraínu.
„Við höfum upplýsingar um að það séu mun fleiri kínverskir borgarar í hersveitum hernámsliðsins en bara þessir tveir. Við erum núna að komast að því sanna,“ sagði forsetinn í færslu á samfélagsmiðlinum Telegram.
Sagðist hann ennfremur hafa skipað utanríkisráðherra sínum að krefja stjórnvöld í Beijing strax svara. Hvatti hann bandalagsríki Úkraínu til þess að mótmæla við kínversk stjórnvöld.
Bein eða óbein þátttaka Kínverja í stríðinu eru skýrt merki um að Vladímír Pútín, forseti Rússlands, sé allt annað í huga en að binda enda á stríðið, að mati Selenskíj. Rússar hafa í reynd hafnað vopnahléstillögu sem Bandaríkjastjórn lagði fyrir á dögunum og Úkraínumenn samþykktu fyrir sitt leyti.
CNN-fréttastöðin segir ekki ljóst hvort að Kínverjarnir séu kínverskir hermenn eða sjálfboðaliðar í rússneska hernum. Kínversk stjórnvöld hafa stutt stríðsrekstur Rússa í Úkraínu óbeint með því að sjá þeim fyrir tækni og búnaði þrátt fyrir viðskiptaþvinganir sem vestræn ríki beita þá vegna innrásarinnar.
Alræðisstjórn kommúnistaríkisins Norður-Kóreu hefur sent hersveitir til Úkraínu til þess að berjast við hliða Rússa. Þá hefur klerkastjórnin í Íran séð Rússum fyrir árásardrónum sem hafa verið notaðir á vígvellinum.