Frá þessu segir á vef Veðurstofunnar. Þar kemur fram að það hafi verið býsna hlýtt að undanförnu, en í kjölfar skilanna sæki kaldara loft að með tilheyrandi útsynningi.
„Á morgun verður áttin því suðvestlæg, víða stinningskaldi og él eða slydduél, en léttskýjað austanlands. Hiti 0 til 8 stig, hlýjast eystra. Annað kvöld lægir og frystir allvíða.
Austan strekkingur við suðurströndina á laugardag og dálítil rigning eða slydda, en hægari vindur í öðrum landshlutum og yfirleitt þurrt. Síðdegis fer hins vegar að bæta í vind og þegar líður á kvöldið er útlit fyrir norðaustan hríðarveður á Austurlandi.
Á sunnudag er svo útlit fyrir ákveðna norðaustanátt með snjókomu um landið norðanvert, en úrkomulítið veður á Suðvesturlandi,“ segir í tilkynningunni.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag: Austan 8-15 m/s við suðurströndina og dálítil rigning eða slydda, en hægari annars staðar og yfirleitt þurrt. Hiti 1 til 8 stig að deginum. Bætir í vind síðdegis, norðaustan 10-18 um kvöldið og fer að snjóa austanlands.
Á sunnudag (pálmasunnudagur): Norðaustan 13-20 og snjókoma eða slydda, en úrkomulítið suðvestantil. Hægari sunnan- og austanlands síðdegis, en norðaustan 18-23 um landið norðvestanvert. Hiti kringum frostmark, en 0 til 5 stig sunnan heiða.
Á mánudag: Norðaustan 8-18, hvassast norðvestantil. Víða él og hiti um eða yfir frostmarki, en þurrt að mestu á Suðvesturlandi með hita að 7 stigum yfir daginn.
Á þriðjudag: Norðaustanátt og slydda eða snjókoma austanlands, en él á Norðurlandi og Vestfjörðum. Hiti breytist lítið.
Á miðvikudag: Norðaustanátt og skúrir eða él norðan- og austantil. Hiti 0 til 7 stig yfir daginn, mildast sunnanlands.
Á fimmtudag (skírdagur): Útlit fyrir norðanátt með snjókomu eða éljum norðan- og austanlands.