Fótbolti

Fjöru­tíu mínútna hlé eftir að peningi var kastað í dómara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn Saint-Étienne eru blóðheitir.
Stuðningsmenn Saint-Étienne eru blóðheitir. getty/Eurasia Sport Images

Gera þurfti fjörutíu mínútna hlé á leik Saint-Étienne og Lyon í frönsku úrvalsdeildinni í fótbolta eftir að peningi var kastað í aðstoðardómara.

Þegar ein mínúta var til hálfleiks tók Mehdi Rahmouni um höfuð sér eftir að áhorfandi kastaði smápeningi í hann.

Sjúkrateymi Lyon hugaði að Rahmouni og meðan það var gert kallaði dómarinn Francois Letexier leikmenn liðanna inn til búningsherbergja.

Leikurinn hófst svo aftur um fjörutíu mínútum síðar. Samkvæmt talsmanni frá frönsku úrvalsdeildinni hefði leikurinn verið stöðvaður fyrir fullt og allt ef annað atvik líkt því sem gerðist með Rahmouni hefði átt sér stað.

Saint-Étienne vann leikinn á endanum, 2-1. Sigurinn var væntanlega sætur en Saint-Étienne og Lyon eru svarnir fjendur.

Stuðningsmönnum Lyon var meinað að ferðast á leikinn vegna atvika í fyrri viðureignum liðanna.

Þá hefur Saint-Étienne verið hótað að tveimur endum stúkunnar á Stade Geoffroy-Guichard verði lokað vegna óláta stuðningsmanna liðsins. Í síðasta mánuði var leik Saint-Étienne og Montpellier hætt eftir að stuðningsmenn Saint-Étienne köstuðu blysum inn á völlinn og það kviknaði í hluta stúkunnar á heimavelli liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×