Körfubolti

Úlfarnir sendu Luka, LeBron og fé­laga í sumar­frí

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James frussar af bræði eftir dóm sem honum mislíkaði.
LeBron James frussar af bræði eftir dóm sem honum mislíkaði. getty/Jon Putman

Tímabilinu er lokið hjá Los Angeles Lakers eftir tap fyrir Minnesota Timberwolves, 96-103, í 1. umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. Úlfarnir unnu einvígið, 4-1.

Rudy Gobert skoraði 27 stig og tók 24 fráköst fyrir Minnesota. Hann skoraði fleiri stig í nótt en í fyrstu fjórum leikjum einvígisins samanlagt.

Úlfarnir hittu afleitlega fyrir utan þriggja stiga línuna (fimmtán prósent) en það kom ekki að sök. Þeir unnu frákastabaráttuna gegn lágvöxnu Lakers-liði, 54-37, og munaði þar miklu um framgöngu Goberts.

Julius Randle skoraði 23 stig fyrir Minnesota og stórstjarnan Anthony Edwards fimmtán.

Luka Doncic skoraði 28 stig fyrir Lakers, tók sjö fráköst og gaf níu stoðsendingar. LeBron James skoraði 22 stig.

Þetta er annað árið í röð sem Lakers fellur úr leik í 1. umferð úrslitakeppninnar. Frá því Lakers vann meistaratitilinn 2020 hefur liðið aðeins einu sinni komist upp úr 1. umferðinni.

Í undanúrslitunum mætir Minnesota sigurvegaranum úr rimmu Houston Rockets og Golden State Warriors.

Houston hélt sér á lífi í einvíginu með sigri í fimmta leik liðanna í nótt, 131-116. Fred VanVleet skoraði 26 stig fyrir Houston, Amen Thompson 25 og Dillon Brooks 24.

Moses Moody skoraði 25 stig fyrir Golden State en Stephen Curry og Jimmy Butler voru aðeins með 21 stig samanlagt.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×