Körfubolti

Sterk liðs­heild Denver á meðan Clippers féll á prófinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn Denver Nuggets fagna með Russell Westbrook.
Stuðningsmenn Denver Nuggets fagna með Russell Westbrook. getty/AAron Ontiveroz

Denver Nuggets tryggði sér sæti í undanúrslitum Vesturdeildar NBA með öruggum sigri á Los Angeles Clippers, 120-101, í nótt.

Denver var mun sterkari aðilinn í leiknum og leiddi mest með 35 stigum. Nuggets vann 2. og 3. leikhluta, 72-40 samanlagt og skoraði sautján stig í röð án þess að Clippers næði að svara í 3. leikhluta.

Sex leikmenn Denver skoruðu fimmtán stig eða meira í leiknum. Aaron Gordon var stigahæstur með 22 stig og Christian Braun gerði 21. Nikola Jokic var með sextán stig, tíu fráköst og átta stoðsendingar.

Mikið hefur gengið á hjá Denver að undanförnu en skömmu fyrir úrslitakeppnina var Mike Malone rekinn sem þjálfari liðsins. David Adelman tók við og stýrði Denver til sigurs í einvíginu gegn Clippers.

Kawhi Leonard skoraði 22 stig fyrir Clippers en James Harden brást enn og aftur á ögurstundu og skoraði aðeins sjö stig en gaf þrettán stoðsendingar.

Í undanúrslitunum mætir Denver Oklahoma City Thunder sem var með bestan árangur allra liða í deildarkeppninni. Þar mætast mennirnir sem berjast um MVP-nafnbótina; Jokic og Shai Gilgeous-Alexander.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×