Innlent

Fjór­tán hvíldartímabrot á 28 dögum

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Um var að ræða umfangsmikla eftirlitsaðgerð.
Um var að ræða umfangsmikla eftirlitsaðgerð. Vísir/Anton Brink

Umfagnsmikil eftirlitsaðgerð var á Suðurlandsvegi í morgun þar sem fjöldinn allur af vörubílum var stöðvaður. Meðal brota voru akturs- og hvíldartímabrot og vanbúnin ökutæki.

„Það er ýmislegt búið að koma upp í dag. Við erum með aksturs- og hvíldartímabrot, við erum með þungabrot og við erum með vanbúin ökutæki. Einhvern slatta af þessu öllu saman,“ segir Jón S. Ólafsson, yfirlögregluþjónn á Vesturlandi, í samtali við fréttastofu.

„Meðal annars var lesið af einu ökutæki þar sem voru fjórtán hvíldartímabrot á 28 dögum, sem er mjög mikið.“

Lögreglan á Vesturlandi stýrði umfangsmikilli eftirlitsaðgerð í morgun á Suðurlandsvegi austur af höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða fyrsta skipti sem slík aðgerð fer fram. Lögregluþjónarnir voru að athuga hvort bílstjórar væru meðal annars með atvinnuleyfi og landvistarleyfi auk ástands ökutækja og öryggisbúnaðar.

„Við erum í fyrsta skipti að keyra sameiginlegt eftirlit nokkurra lögregluliða og stofnana með atvinnuflutningum, sem sagt vörubílum, rútum og svoleiðis,“ sagði Jón fyrr í dag.

Að hans sögn var fjöldinn allur af stórum ökutækjum stöðvaður í morgun en langflestir uppfylltu öll skilyrði. Talsvert af gögnum var safnað sem hann verður nokkra daga að vinna úr.

Kyrrsetja þurfti einhver ökutæki sem uppfylltu ekki skilyrði, meðal annars ferðamannarútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×