Fótbolti

Hjörtur skoraði þegar Volos tryggði sætið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hefur spilað vel á Grikklandi.
Hefur spilað vel á Grikklandi. volosfc

Miðvörðurinn Hjörtur Hermannsson spilaði allan leikinn og skoraði eitt þriggja marka Volos í 3-0 sigri á botnliði Lamia þegar liðin mættust í neðra umspili efstu deildar Grikklands. Með sigrinum er endanlega ljóst að Hjörtur og félagar halda sæti sínu í deildinni.

Hjörtur gekk í raðir Volos í janúar á þessu ári eftir að hlutirnir gengu ekki upp fyrir hann hjá Carrarese í Serie B á Ítalíu. Var ljóst að Hjörtur væri að ganga í raðir félags sem þyrfti að lappa upp á varnarleikinn til að halda sæti sínu í efstu deild á Grikklandi. Það hefur nú gengið upp.

Liðið vann sannfærandi 3-0 sigur í dag og ásamt því að stýra vörn liðsins af miklu öryggi skoraði Hjörtur annað mark liðsins. Um er að ræða annað markið hans fyrir félagið. Gríski framherjinn Lazaros Lamprou skoraði hin tvö mörk Volos í kvöld.

Eftir sigurinn er Volos með 39 stig í 11. sæti, níu stigum frá fallsæti, að loknum 34 umferðum og aðeins tvær umferðir eftir af tímabilinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×