Vel verður fylgst með vistaskiptum Beckham-hjónanna sem flytja innan tíðar frá Spáni til Bandaríkjanna þegar knattspyrnukappinn David Beckham gengur til liðs við lið Los Angeles Galaxy frá Real Madríd. Spáð er fjölmiðlafári og hefur bandaríska sjónvarpsstöðin NBC samið um að fá að mynda flutninginn og sýna í raunveruleikaþáttaröð.
Um sex þætti er að ræða þar sem fylgst verður með því þegar kryddstúlkan fyrrverandi og knattspyrnuhetjan koma sér fyrir í borg englanna. Vafalaust má sjá þau kaupa nýtt hús og nýja bíla og fylgst verður með fjölskyldulífinu. Það eru framleiðendurnir að baki American Idol sem standa að þáttagerðinni sem vekur án efa athygli.