Forráðamenn spænska knattspyrnuliðsins Sevilla hafa farið þess á leit við Knattspyrnusamband Evrópu að fyrri leikur liðsins við Tottenham í 8-liða úrslitum Evrópukeppni félagsliða verði færður. Leikurinn er á dagskrá 5. apríl, en það er skírdagur.
Búist er við að milljón manna verði samankomin til að halda daginn hátíðlegan í Sevilla og vilja borgaryfirvöld síður blanda hátíðarhöldunum saman við stóran knattspyrnuleik af öryggisástæðum. Fundað verður um málið á næstu dögum þar sem unnið verður að því að finna lausn sem hentar báðum liðum segir í tilkynningu frá knattspyrnusambandinu.