Magnús Magnússon, forsvarsmaður Eignarhaldsfélagsins Borgunar slf, setti sig í samband við Landsbanka Íslands og sýndi áhuga á kaupum á hlut Landsbankans. Landsbankinn ákvað í kjölfarið að selja 31,2 prósenta hlut sinn í Borgun til félagsins fyrir tæpa 2,2 milljarða króna án þess að auglýsa hlutinn til sölu og gefa þannig öðrum færi á að gera tilboð.

Kjarninn greinir frá því að stærsti einstaki aðilinn í hluthafahópnum eru Stálskip ehf. sem á rúm 23 prósent af heildarhlutafé félagsins, en hlutfjárflokkarnir eru þrír. Sjálfseignarfélagið Orbis Borgunar slf. er næststærsti einstaki hluthafinn með rúmlega 20 prósenta hlut. Það félag á bæði A og C hlutabréf en þeim fylgir mismunandi ábyrgð. Stálskip á B hlutabréf.
Annar stór aðili sem stendur á bak við kaupin eru tengdur Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, fjölskylduböndum. Það eru feðgarnir Einar Sveinsson og Benedikt Einarsson sem eiga 15,6 prósent ef heildarhlutafé eignarhaldsfélagsins í gegnum félagið P126 ehf. sem er í eigu Charamino Holdings Limited, félag þeirra í Lúxemborg. Einar er föðurbróðir Bjarna.

Bankinn svarar fyrir söluna með nýrri yfirlýsingu þar sem segir bankinn hafi ákveðið „að ekki væri rétt að selja hluta bankans í opnu söluferli“. Ástæðurnar sem taldar voru til voru einkum eftirfarandi:
- Landsbankinn hafði ekki aðstöðu til að afla upplýsinga um Borgun hf. sem áhrifalaus minnihlutaeigandi í fyrirtækinu.
- Landsbankinn hefur haft mjög takmarkaðan aðgang að Borgun eða upplýsingum um fyrirtækið vegna sáttar sem gerð var við Samkeppniseftirlitið árið 2008.
- Ríkar skyldur hvíla á bankanum við sölu eigna að veita sem bestar upplýsingar. Bankarnir voru harðlega gagnrýndir fyrir laka upplýsingagjöf við sölu á bréfum í Decode um síðustu aldamót.
- Bankinn fékk gott verð fyrir hlutinn í Borgun að mati Steinþórs.