Um þrjú ár eru síðan Íslendingar gátu byrjað að tala íslensku við leitarvélina. Nú er stefnt að því að leitarvélin sjálf geti talað við fólkið. Úlfar Erlingsson er doktor í tölvunarfræði og starfar við öryggismál hjá Google. Hann heldur utan um verkefnið hér á landi.
„Venjulega þegar búin er til svona tölvurödd eru fengnir alvöru leikarar, þeim er borgað og það tekur margar vikur, bara eins og talsetning fyrir bíómyndir. Sú leið svarar hins vegar ekki kostnaði fyrir sjaldgæfari tungumál. Því hefur Google þróað ódýrar aðferðir sem henta vel í sjálfboðavinnu til að búa til tölvuraddir fyrir minni málsvæði,“ segir Úlfar.
„Núverandi röddin er bara algjör tölvurödd, en hinar raddirnar í svona stærri tungumálum eru orðnar rosa flottar, það er enginn mnur á þeim og venjulegri rödd.“
Stefnt er á að klára verkefnið fyrir jól. Úlfar segir að þetta komi til með að verða afar þýðingarmikið til dæmis fyrir kennslu á Íslandi, og fyrir þá sem hafa hug á að læra íslensku.
„Máltæknin er fyrst og fremst þýðingarmikil ef fólk vill halda áfram að tala íslensku. Ein hugmyndin er að grunnskólar geti nýtt sér þetta, en eitt af því sem ég hef verið að vinna að er að það sé ókeypis og auðveldur aðgangur að þessu,“ segir hann.
Sem fyrr segir verða sjálfboðaliðarnir tuttugu; tíu karlar og tíu konur. Hver og einn les um nokkur hundruð setningar en sett voru þau skilyrði að þeir sem lesi séu með góða, jafna og skýrmælta rödd og kunni að beita henni rétt. Tekið verður upp með sérstökum búnaði frá Google, sem kemur hingað til lands í næstu viku.
Þær hættur sem steðja að íslenskri tungu á stafrænni öld voru til umfjöllunar í fréttaskýringaþættinum Brestum á Stöð 2 í fyrravetur. Hér fyrir neðan má sjá brot úr þættinum.