Forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar eru hins vegar sammála um að málið krefjist skoðunar. „Ég vil spyrja hæstvirtan forsætisráðherra hvort hann hafi gert einhvern reka að því að afla upplýsinga um þetta mál og hvort hann sé sammála mér í því að mikilvægt sé að það verði rannsakað í þaula,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi.
Sigmundur Davíð sagðist vera sammála því að mikilvægt væri að tryggja að ríkið fengi sem mest fyrir þær eignir sem ákveðið væri að selja. Hann sagði að Borgunarmálið krefðist líka skýringa. „Niðurstaða sem er augljóst klúður. Mér skilst reyndar að bankinn ætli að eigin frumkvæði að skila þinginu greinargerð,“ sagði Sigmundur Davíð og tók fram að hann styddi þá tillögu að Alþingi stæði að rannsókn á sölunni.

Á vef Landsbankans hafa verið birtar ítarlegar upplýsingar um söluna á Borgun. Þar er fullyrt að bankinn hafi ekki haft upplýsingar um að valréttur vegna hugsanlegrar yfirtöku Visa Inc. á Visa Europe myndi leiða til greiðslna til Borgunar. Þessar upplýsingar hafi ekki heldur komið fram í tengslum við önnur viðskipti með hluti í Borgun á árunum 2009-2014. Í viðræðum við stjórnendur Borgunar hafi ekki komið fram neinar upplýsingar um að Borgun hefði rétt á hlutdeild í verðmætum valréttarins, hvað þá að vegna hans hefðu skapast verðmæti hjá Borgun.