Skeyti fyrirtækisins varð til þess að hlutabréf Icelandair Group féllu um 24 prósent í verði og 27 milljarðar af markaðsvirði félagsins þurrkuðust út. Gengi hlutabréfa þess nam við lokun markaða 16,8 krónum á hlut og hefur því fallið um 57 prósent á aðeins níu mánuðum. Markaðsvirði félagsins hefur á þeim tíma lækkað um rúmlega 110 milljarða en þegar það stóð hvað hæst voru bréf Icelandair metin á um 195 milljarða.

„Það er samkeppnin, ekki síst frá lággjaldaflugfélögum, sem er að herja á Icelandair og hafa áhrif á rekstur félagsins og mögulega meira en menn töldu. Bókanir eru minni sem þýðir auðvitað að menn eru að sækja sér flug hjá öðrum fyrirtækjum í meira mæli en áður. Icelandair hefur verið lykilflugfélag og verður það mögulega áfram en það er ljóst að menn eru að láta finna vel fyrir sér í samkeppninni,“ segir Guðlaugur.

Stærstu hluthafar Icelandair eru lífeyrissjóðir en þeir eiga samanlagt meira en helmingshlut. Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti einstaki hluthafinn með 14,7 prósenta hlut og því hefur þessi hlutabréfalækkun rýrt verulega verðmæti eignarhlutar sjóðsins í félaginu. Þegar gengi bréfa Icelandair var í hæstu hæðum nam virði þess hlutar sem sjóðurinn átti um 29 milljörðum en við lokun markaða í gær var markaðsverðmæti hans komið niður í rúmlega tólf milljarða króna.
Líkt og Icelandair gerði í afkomuviðvöruninni benda Guðlaugur og Stefán Broddi á að staða flugfélagsins sé enn sterk.
„Flugstarfsemi er mjög sveiflukennd og er svo alþjóðleg að það eru margir þættir sem hafa áhrif á hana sem félögin geta ekki stýrt nema að litlu leyti. Félagið hefur boðað að það sé að bregðast við og það verður áhugavert að sjá hvað kemur út úr því,“ segir Stefán Broddi.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu