1999 vísar til þess að fyrsta Iceland Airwaves hátíðin fór fram umrætt ár. Þá var hátíðin öllu minni í sniðum eins og oft hefur verið fjallað um en hún fór fram í flugskýli á Reykjavíkurflugvelli. Síðan hefur hátíðin lagt undir sig miðbæ Reykjavíkur auk þess sem hluti af dagskránni fer fram norðan heiða, á Akureyri.
Hilmar Geirsson, vörumerkjastjóri Víking brugghúss, segir að notendur á Facebook-síðu brugghússins hafi kastað fram mögulegum nöfnum á Airwaves bjórinn í ár. 1999 hafi orðið fyrir valinu.
„Bjórinn var bruggaður fyrir tíu dögum og síðan höfum við spilað fyrir hann Airwaves Spotify playlistann. Við settum hátalara við tankinn og bjórinn fær að gerjast við innblástur tónlistarinnar,“ segir Hilmar. Gleðiverð verði á bjórnum á Ægisgarði alla hátíðina, 800 krónur fyrir stóran og 500 krónur fyrir lítinn.
Á lagalistanum kennir eðli málsins samkvæmt ýmissa grasa en 212 lög eru á listanum frá hinum ýmsu listamönnum, innlendum sem erlendum.
Bjórinn er eingöngu bruggaður fyrir kúta og verður til sölu á Ægisgarði, Íslenska barnum og Gauknum. Off-venue dagskrá verður á Ægisgarði og Íslenska en Gaukurinn er einn af aðaltónlistarstöðum hátíðarinnar sem nú er haldin í 19 skipti.
Að neðan má sjá lagalistann fyrir Airwaves 2017.