Nú er liðnir tveir mánuðir frá því Daníel Már hætti að drekka. Hann segir mikið hafa gengið á í lífi sínu á þessum tíma, þetta hafi verið erfitt en hann sé ennþá hættur.
„Maður er þyrstur, en ekkert sem ég ræð ekki við. Fylgið stækkar meira ef ég er ekki mökkaður alltaf.”
Stækkar og stækkar
Það virðast orð að sönnu. Því á þessum tveimur mánuðum segir hann fylgið hafa stækkað frá 5000 manns upp í 6500. En hann hefur ekki fylgt ráðleggingum þeirra Gæa og stofnendum Markaðsstofunnar Eylendu til hlítar.
Í þætti gærkvöldsins lögðu þau þunga áherslu á að þeim gangi best á Snapchat sem séu einlægir og persónulegir. En Daníel Már heldur áfram að rugla og bulla í fylgjendum sínum, eins og sést í myndbandinu sem hér fylgir.
Þriðji þáttur Snappara verður á dagskrá Stöðvar 2 næstkomandi sunnudagskvöld. Þar kynnumst við tveimur gerólíkum snöppurum, brimbrettagaurnum Binna Löve sem hikar ekki við að koma nakinn fram og guðfræðinemanum Ernu Kristínu. Umsjón þáttanna er í höndum Lóu Pind Aldísardóttur, upptökustjórn og klippingu annaðist Lúðvík Páll Lúðvíksson.
Daníel bullar oft töluvert á Snapchat og má sjá brot frá reikningi hans hér að neðan en reikningurinn hans er Djaniel88.