Erlent

Herinn stýrir nú störfum lögreglu í Ríó de Janeiro

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Herinn að störfum í Ríó de Janeiro í Brasilíu.
Herinn að störfum í Ríó de Janeiro í Brasilíu. Vísir/AFP
Ríkisstjórn Brasilíu skipaði hernum í gær að taka yfir stjórn löggæslu í Ríó de Janeiro. Vonast stjórnin til þess að þannig verði hægt að draga úr ofbeldi eiturlyfjagengja sem „hafa tekið öll völd“ í þessari tólf milljóna manna borg. Frá þessu sagði Michel Temer forseti í gær.

Átta prósent fleiri morð voru framin í fyrra en árið 2016. Þá munar 26 prósentum á fjölda morða árið 2017 miðað við 2015 samkvæmt tölfræði frá ríkisstjórninni sem Reuters fjallaði um í gær. Brasilíski herinn hefur verið við störf í Ríó undanfarin ár til að berjast gegn gengjaofbeldi en sú breyting verður á að nú mun herinn alfarið stýra aðgerðum.

Að því er Reuters greinir frá eru skotbardagar á milli skæruliða, glæpagengja og lögreglu daglegt brauð í fátækari hverfum borgarinnar. Þá hafi ofbeldið verið að breiðast út í ríkari hverfi undanfarið.

Búist er við því að þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar valdi frestun á atkvæðagreiðslu þingsins um breytta eftirlaunalöggjöf. Sú löggjöf hefur verið helsta viðfangsefni ríkisstjórnar Temers en samkvæmt Reuters er ekki stuðningur við breytingarnar meðal almennings. Enn skortir Temer-stjórnina fjörutíu atkvæði í þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×