Erlent

Trudeau lofar að styðja ekki síkaríki

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Trudeau-fjölskyldan heimsótti hið gullna musteri síka í gær.
Trudeau-fjölskyldan heimsótti hið gullna musteri síka í gær. Vísir/AFP
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, lofaði forsætisráðherra Punjab-ríkis Indlands í gær að yfirvöld í Kanada myndu ekki styðja aðskilnaðarhreyfingu þeirra sem vildu stofna sjálfstætt ríki síka, það er að segja þeirra sem aðhyllast trúarbrögðin síkisma.

Þótt slíkar hreyfingar hafi verið áhrifamestar á áttunda og níunda áratug síðustu aldar hafa yfirvöld í ríkinu enn nokkrar áhyggjur af starfsemi aðskilnaðarsinna. Sjálfstætt ríki síka var síðast til á átjándu og nítjándu öld. Var höfuðborg ríkisins, Khalistan, í Lahore sem nú tilheyrir Pakistan. Stærstur hluti veldisins er raunar nú hluti Pakistans þótt það hafi teygt sig langt inn í Punjab og önnur ríki Indlands.

„Ég var mjög hrifinn af því sem forsætisráðherrann sagði á fundinum. Ég vakti máls á Khalistan, af því að það er málið sem er í hvað mestum forgangi hjá okkur. Orð hans eru okkur Indverjum mikill léttir og við hlökkum til að sjá hvernig hann ætlar að styðja okkur í baráttunni gegn jaðarhreyfingum aðskilnaðarsinna,“ sagði Amarinder Singh, forsætisráðherra Punjab, í gær.

Nokkur fjöldi síka er í Kanada. Sá áhrifamesti er án nokkurs vafa Harjit Singh Sajjan, þingmaður og varnarmálaráðherra. Indverskir miðlar hafa undanfarið sagt að Trudeau­ hafi fengið dræmar móttökur í heimsókn sinni til Indlands vegna áhyggja af því að hann myndi ekki taka harða afstöðu gegn „öfgahreyfingum síka“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×