Þróttarar eru búnir að finna þjálfara fyrir Inkasso-deildina í sumar en þeir misstu þjálfara sinn óvænt fyrr í þessari viku.
Gunnlaugur Jónsson verður næsti þjálfari Þróttaraliðsins en þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins, ruv.is. Gregg Ryder hætti óvænt þjálfun Þróttar stuttu fyrir Íslandsmótið vegna faglegs ágreinings.
Gunnlaugur var ekki lengi frá þjálfun eftir að hann sagði af sér sem þjálfari Skagamanna í lok ágúst í fyrra. Skagamenn voru þá í neðsta sæti Pepsi-deildarinnar og féllu síðan mánuði síðar.
Gunnlaugur mun því þjálfa í Inkasso-deildinni í sumar á móti sínum gömlu félögum í ÍA, HK og Selfossi en hann hefur þjálfað öll þessi lið í b-deildinni.
Gregg Ryder var búinn að þjálfa Þróttara frá og með 2014-tímabilinu og fór upp með liðið sumarið 2015. Þróttur féll strax aftur í b-deildina og endaði í 3.sæti í Inkasso-deildinni í fyrrasumar, fjórum stigum frá sæti í Pepsi-deildini.

