Landsbankinn hefur þegar lækkað innlánsvexti sína til þess að lágmarka áhrif reglnanna. Seðlabankinn telur að áhrifin á tekjur bankanna verði á heildina litið fremur lítil en segir að árlegar vaxtatekjur þeirra geti að óbreyttu lækkað um sem nemur 0,02 prósentum af stærð efnahagsreiknings þeirra. Miðað við efnahagsreikninga bankanna í lok marsmánaðar gætu vaxtatekjur þeirra þannig lækkað um hátt í 700 milljónir króna á ári.
Viðmælendur Markaðarins innan bankakerfisins telja það mat hins vegar afar varlega áætlað. Kostnaðurinn geti hæglega orðið meiri. Peningastefnunefnd Seðlabankans samþykkti á fundi sínum í byrjun síðasta mánaðar að breyta fyrirkomulagi bindiskyldu bankanna þannig að hún skiptist í tvo hluta: meðaltalsbindiskyldu, eins og verið hefur, og fasta bindiskyldu. Fasta bindiskyldan nemur einu prósenti af bindigrunni bankanna – en grunnurinn telur peningamarkaðsbréf, útgefin skuldabréf og innstæður – og ber enga vexti.
Meðaltalsbindiskyldan, sem nemur einnig einu prósenti af bindigrunni, ber hins vegar áfram fjögurra prósenta vexti. Seðlabankinn segir að markmið breytinganna, sem tóku gildi 21. júní, sé að draga úr kostnaði bankans af stórum gjaldeyrisforða – en hann nam um 27 prósentum af vergri landsframleiðslu í lok síðasta árs – á meðan jákvæður vaxtamunur gagnvart útlöndum er eins mikill og raun ber vitni.

„Framreikningar sem gerðir voru á síðasta ári bentu til þess að afkoma bankans yrði af þessum sökum neikvæð um sem næmi um 18 milljörðum króna á ári,“ sagði Már en hann benti þó á að nýir útreikningar sýndu að umrætt tap hefði minnkað í 15 milljarða króna á ári, aðallega vegna minni gjaldeyrisforða og lægri vaxtamunar gagnvart útlöndum. Seðlabankinn var með neikvætt eigið fé upp á 5,4 milljarða króna í lok aprílmánaðar, samkvæmt efnahagsreikningi bankans, en eigið féð var orðið jákvætt um 13 milljarða í lok síðasta mánaðar.
Sjá einnig: Lending hagkerfisins verður mjúk eftir öran vöxt
Heimildir Markaðarins herma að umræddar aðgerðir hafi komið bönkunum í opna skjöldu. Vissulega hafi seðlabankastjóri boðað breytingar í þessa veru á ársfundi bankans en fulltrúar Seðlabankans hafi hins vegar ekki rætt áformin við stjórnendur bankanna áður en tilkynnt var um þau. Arion banki segir í svari við fyrirspurn Markaðarins að aðgerðirnar séu „nokkuð sérstök ráðstöfun sem felur í sér kostnaðarauka fyrir bankann og bankakerfið í heild“. Eru breytingarnar sagðar til skoðunar innan bankans en að öðru leyti vildi bankinn ekki tjá sig um þær. Íslandsbanki segist, eins og áður sagði, vera mjög ósáttur við frekari gjaldtökur af bankakerfinu.
„Þessi breyting á bindiskyldunni gerir það að verkum að bankinn verður af 247 milljóna króna vaxtatekjum árlega,“ segir í svari bankans en það eru um 0,023 prósent af efnahagsreikningi bankans í lok marsmánaðar. „Þetta hefur veruleg áhrif á samkeppnishæfni íslenska bankakerfisins,“ segir bankinn jafnframt. Í stuttu svari Landsbankans segir að bankinn hafi lagt mat á áhrif umræddra breytinga og í kjölfarið hafi bankinn lækkað innlánsvexti um fimm punkta til þess að lágmarka áhrifin á rekstrarreikning sinn. Tók breytingin gildi sama dag og nýju reglurnar, eða 21. júní síðastliðinn.
Í ársfundarræðu sinni benti Már á að seðlabankar yrðu ekki gjaldþrota í hefðbundinni merkingu þótt þeir hefðu neikvætt eigið fé, enda hefðu „margir virtir seðlabankar búið við það yfir lengri eða skemmri tíma“. Ástæðan væri sú að kaupmáttur forðans væri óskertur gagnvart þeim tilgangi sem hann þjónar og seðlabankar gæfu auk þess sjálfir út gjaldmiðilinn sem þeir greiða innlendan kostnað í. Engu að síður sagði Már það geta verið óheppilegt að Seðlabankinn yrði með verulega neikvætt eigið fé. Það gæti grafið undan sjálfstæði hans og getu til þess að ná markmiði um verðstöðugleika.