Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 4,5 prósent.
Í tilkynningu frá Seðlabankanum segir að samkvæmt nýlega birtum þjóðhagsreikningum hafi hagvöxtur verið fimm prósent á fyrstu níu mánuðum ársins sem er lítillega meira en Seðlabankinn gerði ráð fyrir í nóvemberspá sinni.
Verðbólga hafi aukist eftir því sem liðið hefur á árið í takt við spá bankans og mældist hún 3,3 prósent í nóvember. Þar vegi þyngsts mikil hækkun innflutningsverðs undanfarna mánuði en gengi krónunnar hefur lækkað um liðlega 11 prósent frá áramótum.
Þessi gengislækkun og áhyggjur af komandi kjarasamningum hafa komið fram í væntingum um frekari aukningu verðbólgu. Taumhald peningastefnunnar, eins og það mælist í raunvöxtum Seðlabankans, hefur því heldur losnað á ný, að mati Seðlabankans en horfa má á beina útsendingu frá rökstuðningi nefndarinnar hér að neðan.