Magnús Ragnarsson, framkvæmdarstjóri hjá Símanum, var að öllum líkindum ánægðari en flestir með ráðningu Magnús Geirs Þórðarsonar í sæti Þjóðleikhússtjóra.
Í gær var tilkynnt um það að Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hafi ákveðið að skipa Magnús Geir, núverandi útvarpsstjóra, í stöðuna.
Fram kom í tísti Magnúsar að hann hafi þar með unnið alls fjögur veðmál og í heildina haft 120 þúsund krónur upp úr krafsinu. Magnús staðfesti þetta í samtali við Vísi en vildi annars ekkert tjá sig um málið.
Nokkur eftirvænting var eftir ákvörðun ráðherrans og höfðu margir trú á því að Magnús væri líklegur til að hljóta starfið eftir að hann tilkynnti um umsókn sína í byrjun júlí síðastliðnum. Magnús hefur áður gengt stöðu leikhússtjóra í Borgarleikhúsinu og sömuleiðis hjá Leikfélagi Akureyrar fyrir norðan.
Sjö sóttu um stöðuna en meðal umsækjenda voru Ari Matthíasson, núverandi Þjóðleikhússtjóri, og Kristín Eysteinsdóttir Borgarleikhússtjóri.
Var rétt í þeesu að vinna 4 veðmál. Nettó 120 þús kjall:https://t.co/0FjYmecwnY
— Magnus Ragnarsson (@MagnusRagnars) November 1, 2019